Fálkinn

Fálki (Falco rusticolus) er stærstur allra fálkategunda. Hann er einnig norðlægastur þeirra allra, með útbreiðslu allt í kringum Norðurheimskautið. Hérlendis er fálkinn sjaldgæfur varpfugl sem verpur dreift um allt land. Algengastur er hann á Norðausturlandi þar sem þéttleiki rjúpu (Lagopus muta), aðalfæðu hans er mestur.  Jökulsárgljúfur eru eitt mikilvægasta búsvæði fálkans enda er þar úrval góðra varpstaða og stutt í gjöfular veiðilendur.

Fálkinn á sér sérstakan sess í sögu og menningu Íslendinga. Fá alda öðli voru fálkar veiddir á Íslandi og fluttir út til Evrópu þar sem þeir voru tamdir til veiðileikja. Fálkinn var áður í skjaldarmerki Íslendinga og fálkaorðan, eitt æðsta heiðursmerki Íslendinga, er við hann kennd. Fálkinn hefur verið alfriðaður á Íslandi frá árinu 1940.

Margir vilja gera fálkann að þjóðarfugli Íslands og væri þessi tígulegi fugl vel að því kominn.