Fálki matreiðir rjúpu

Á fálka- og rjúpnaslóðum má oft sjá ummerki þess að rjúpa hefur lotið í lægra haldi fyrir fálka, fjaðrir og bein af rjúpu.

„Fyrsta verk fálkans að lokinni veiði er að drösla rjúpunni upp á næsta þúfnakoll og reyta hana. Ætli hann sér að fljúga með fuglinn heim í hreiður slítur hann af og étur haus og tær, skilur görnina eftir en étur lifur og hjarta. Éti fálkinn rjúpuna á staðnum finnast bein í flekknum (bringubein, bakbein og vængbein). Beinin eru nöguð og bitin; til dæmis vantar oftast kjölinn og afturhlutann á bringubeinið og spjaldhryggurinn er nagaður alveg upp að hryggjarliðum“. (Ólafur K. Nielsen 1996. Rjúpnatalningar á Norðausturlandi 1981-1994. Náttúrufræðingurinn 65: 137-151.)

Í nágrenni fálkahreiðra má oft finna staði með leifum af sundurtættum rjúpum. Þar er rjúpan aflimuð og étin af fullorðnu fuglunum áður en ungar koma úr eggjum. Eftir útungun fara fuglarnir með bráðina, eða hluta hennar í hreiðrið til unganna.