Fálkinn í skjaldarmerki Íslands

Fyrsta skjaldarmerki Íslands var þorskur en algengt er að teikningar af einkennisdýri lands séu notaðar í skjaldarmerki. Með heimastjórninni fékk Ísland nýtt skjaldarmerki  en þann 3. október 1903 var kveðinn upp konungsúrskurður um að skjaldarmerki Íslands skuli vera „hvítur íslenskur fálki á bláum grunni“ og skyldi fálkinn sitja og snúa til vinstri. Ráðuneyti Íslands í Kaupmannahöfn lét teikna merkið eftir þessari lýsingu og var tillagan lögð fyrir Kristján IX Danakonung sem samþykkti hana 11. desember 1903.

Fannst mönnum veglegra nú þegar aukið sjálfstæði beið Íslands að nota þennan svipmikla og tígulega fugl sem tákn landsins fremur en þorskinn sem hafði fyrr á öldum verið notaður sem merki Íslands. Þarna hafði hin mikla saga um fálkaútflutning frá Íslandi mest áhrif á hvaða einkennisdýr Íslendingar völdu í nýtt skjaldarmerki. Skjaldarmerki Íslands á Heimastjórnarárunum 1904-1918 var því hvítur fálki á bláum grunni. Íslenski fálkinn var einnig neðst til vinstri í skjaldarmerki Danakonungs og var hann ekki tekinn úr því fyrr en árið 1948.

Árið 1919 var skjaldarmerki Íslands breytt og fálkamerkið tekið úr umferð. Við tók Landvættaskjaldamerkið sem var svo aftur breytt nokkuð við stofnun lýðveldisins árið 1944.

Árið 1920 var gefinn út úrskurður um sérstakan íslenskan konungsfána en í honum var íslenskur fálki. Þennan fána notaði Kristján X Danakonungur við komu sína til Íslands árið 1921 en þá um sumarið stofnaði hann Hina íslensku fálkaorðu.

Af þessu mætti ætla að íslenski fálkinn hafi verið í miklum metum hjá Danakonungi.