Rjúpan og María mey

“Einu sinni boðaði María mey alla fuglana á fund sinn. Þegar þeir komu þangað skipaði hún þeim að vaða bál. Fuglarnir vissu að hún var himna drottning og mikils megandi. Þeir þorðu því ekki annað en hlýða boði hennar og banni og stukku þegar allir út í eldinn og í gegnum hann nema rjúpan. En er þeir komu í gegnum eldinn voru allir fæturnir á þeim fiðurlausir og sviðnir inn að skinni og svo hafa þeir verið síðan allt til þessa dags og hlutu þeir það af því að vaða bálið fyrir Maríu.

En ekki fór betur fyrir rjúpunni sem var sú eina fuglategund sem þrjóskaðist við að vaða eldinn, því María reiddist henni og lagði það á hana að hún skyldi verða allra fugla meinlausust og varnarlausust, en undireins svo ofsótt að hún ætti sér ávallt ótta vonir nema á hvítasunnu, og skyldi fálkinn sem fyrir öndverðu átti að hafa verið bróðir hennar ævinlega ofsækja hana og drepa og lifa af holdi hennar.

En þó lagði María mey rjúpunni þá líkn að hún skyldi mega skipta litum eftir árstímunum og verða alhvít á vetrum, en mógrá á sumrum, svo fálkinn gæti því síður deilt hana frá snjónum á veturna og frá lyngmóunum á sumrum.

Þetta hefur ekki úr skorðum skeikað né heldur hitt að fálkinn ofsæki hana, drepi og éti, og kennir hann þess ekki fyrr en hann kemur að hjartanu í rjúpunni að hún er systir hans enda setur þá að honum svo mikla sorg í hvert sinn er hann hefur drepið rjúpu og étið hana til hjartans að hann vælir ámátlega lengi eftir.“