Veiðar og friðun rjúpu

Íslendingar hafa sjálfsagt veitt rjúpur frá landnámi þó ólíklegt sé að mikið hafi kveðið að þessum veiðum fyrr en með tilkomu skotvopna í almanna eigu. Um miðja nítjándu öld hófst útflutningur á rjúpum sem náði hámarki 1924 – 1927 þegar fluttar voru út um  250 þúsund rjúpur á ári. Þessi útflutningur lagðist af árið 1940 við alfriðun rjúpunnar sem stóð í þrjú ár. Rjúpan var einnig alfriðuð árin 1915, 1920-1923 og 1930 – 1932 þegar stofninn var í lágmarki. Líklegt er að neysla Íslendinga á rjúpum hafi aukist eftir að útflutningi lauk en hún var í fyrstu talin fátækra matur. Ekki er vitað hvenær rjúpan fór að verða vinsæl sem jólamatur.

Veiðar í dag styðjast við lög nr. 64/1994 og reglugerð nr. 456/1994. Bæði lögin og reglugerðin hafa breyst talsvert frá því þau voru sett og veiðar þar með. Í upphafi var veiði á rjúpum leyfð í 69 daga ár hvert eða frá 15. október til 22. desember. Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á rjúpnastofninum sýndu hins vegar fram á að stofninn færi minnkandi og toppar í stofnsveiflunni urðu sífellt lægri. Með sama áframhaldi gerðu spár ráð fyrir að stofnsveiflur myndu hætta alveg og stofninn festast í viðvarandi lágmarki. Því var árið 2003 gripið til þess ráðs að friða rjúpuna tímabundið og hætta öllum veiðum í þrjú ár þ.e. 2003 – 2005.

Við friðunina tók stofninn mikinn vaxtarkipp og tvöfaldaðist stofninn milli ára tvö fyrstu árin. Þessi mikla fjölgun varð þess valdandi að veiðar voru leyfðar á ný árið 2005, ári fyrr en til stóð. Búið var að gera stofnstærðarlíkan fyrir rjúpuna og var það notað til að spá fyrir um veiðiþol. Þessi spá var svo notuð til ákvörðunar um veiðitímabil sem nú var stytt í 47 daga eða frá 15. október til 30. nóvember. Jafnframt var sett á sölubann og friðað svæði í nágrenni höfuðborgarinnar var stækkað þannig að það náði um allan Reykjanesskagann eða um 2.600 km². Stofnstærðarlíkanið hefur frá árinu 2005 verið notað til mats á veiðiþoli rjúpnastofnsins og veiðitíminn verið ákvarðaður út frá því. Markmiðið er að veiðar verði sjálfbærar og stofninn fái að sveiflast með eðlilegum hætti í framtíðinni.

Þrátt fyrir þá takmörkun sem sett var á veiðar árið 2005 fækkaði umtalsvert í stofninum eftir mikla uppsveiflu friðunarárin. Því var veiðidögum fækkað enn frekar og árið 2006 var einungis leyft að veiða á fimmtudögum til sunnudags í hverri viku en á sama tímabili og árið áður. Veiðitíminn var því kominn niður í 26 daga. Stofninn hélt áfram niðursveiflu sinni og frekari takmarkanir á veiðar voru settar. Næstu fjögur ár (2007-2010) var leyft að veiða 18 daga á ári en tímabilið var ekki alltaf það sama. Fyrri tvö árin var einungis veitt í nóvember, fjóra daga í viku en seinni tvö árin frá 27. október til 6. desember en hins vegar bara þrjá daga í viku. Á þessu tímabili var stofninn í uppsveiflu og náði hámarki árið 2010. Niðursveiflan sem kom í kjölfarið var svo kröftug að veiðistofninn 2011 var innan við helmingur þess sem var árið 2010. Veiðitíminn var því færður niður í 9 daga árið 2011 sem dreifðust á 4 helgar. Búast má við að stofninn nái lágmarki einhvern tímann frá 2015 til 2018 svo ólíklegt verður að telja að veiðitíminn verði lengdur aftur í bráð.