Áhrif þrávirkra lífrænna eiturefna á fálkann

Magn þrávirkra lífrænna efna hefur verið skoðað nokkuð í íslensku vistkerfi. Rannsóknir voru meðal annars gerðar á fálkum og nokkrum fuglategundum sem hann veiðir sér til matar. Niðurstöður varðandi íslenska fálkanna voru sláandi en í ljós kom að magn DDT og PCB efna í íslenskum fálkum var jafnvel meira hér á landi en fundist hefur í skyldum tegundum erlendis og jafnvel meiri en ætla mætti af legu landsins og notkun efnanna á Íslandi. Einnig kom í ljós að beint samband var á milli magns efnanna í fálkunum og aldurs fuglanna en þau safnast upp í líkama dýranna á meðan þau lifa. Efnin DDT og PCB virtust einnig berast saman í fálka þar sem beint samband var á milli magns beggja efna í öllum þeim fuglum sem rannsakaðir voru. Ólíklegt er að um staðbundna mengun efnanna sé að ræða og líklegast að efnin berist í íslenska fæðukeðju erlendis fá, með loft- eða hafstraumum eða farfuglum sem fá eiturefnin í sig á erlendum vetrarstöðvum og enda sem fæða fálkans.

Magn klórkolefnissambanda s.s. DDT og PCB, var einnig kannað í rjúpum víðs vegar af landinu og reyndist magnið mjög lítið. Rjúpan lifir einkum á fræjum og lyngi og því ljóst að það fyrsta stig fæðukeðjunnar á landi eru nokkuð hreint hvað þessi efni varðar. Þar sem rjúpan er aðalfæða fálkans þá hlýtur fálkinn að fá mengunina úr annarri fæðu en rjúpunni. Ungir fálkar leita mikið í æti við sjávarsíðuna og það gera einnig fullorðnir fálkar ef fæðuþurrð er á varpstöðvum. Velta má fyrir sér hvort að það útskýri að einhverju leyti upptök efnanna hjá fálkanum.

Nauðsynlegt er að fylgjast vel með þessari þróun og reyna að komast að hvar upptök mengunarinnar eru. Ef efnin ná að safnast upp í líkama fuglanna getur það leitt til minni viðkomu fálkans sem hefur mjög neikvæð áhrif á stofninn til langs tíma litið.