Æviágrip

Theodór Gunnlaugsson frá Bjarmalandi fæddist á heiðarbýlinu Hafurstöðum í Öxarfirði þann 27. mars 1901. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Þorsteinn Flóventsson og Jakobína Rakel Sigurjónsdóttir.  Theodór ólst upp á Hafurstöðum en bærinn er í næsta nágrenni við Jökulsárgljúfur.  Hefðbundin skólaganga Theodórs var ekki löng en að loknu barnaskólanámi naut hann tilsagnar Jóns Arasonar prests á Húsavík í nokkrar vikur. Þar næst lá leið hans í Samvinnuskólann og útskrifaðist hann þaðan árið 1920, þá 19 ára gamall. Stærsti og mikilvægasti skólinn í lífi Theodórs voru hinsvegar Jökulsárgljúfrin en þaðan aflaði hann sér ómældrar þekkingar á náttúru landsins og verndun hennar.

Árið 1925 kvæntist Theodór, Guðrúnu Pálsdóttur frá Svínadal, en Svínadalur var heiðarbýli vestan ár, andspænis Hafurstöðum. Nokkrum árum síðar byggðu Theodór og Guðrún nýbýlið Bjarmaland út úr landi Hafurstaða og við þann stað kenndi Theodór sig jafnan síðan.

Systkini Theodórs voru þau Flóvent Helgi Gunnlaugsson, Halldóra Gunnlaugsdóttir og Guðmundur Gunnlaugsson en Guðmundur,  eða „Mundi bróðir“ eins og Theodór ávallt kallaði hann, fórst í Brunná í Öxarfirði, þá ungur maður.  Helgi tók við búi á Hafurstöðum en Halldóra varð húsfrú á Ærlæk í sömu sveit.

Hafurstaðir eiga land með Jökulsá allt frá Valagilsá og suður fyrir Dettifoss, nánar tiltekið að hreppamörkum á Syðra Norðmelsfjalli þar sem gamli Hólsfjallahreppur tekur við. Hafurstaðir og Bjarmaland voru afskekkt heiðarbýli sem lágu hátt yfir sjó. Kólnandi veðurfar upp úr miðri síðustu öld gerði búskap þar erfiðan og Guðrún og Theodór hættu búskap á Bjarmalandi árið 1957. Frá Bjarmalandi fluttu þau á jörðina Austaraland, sem er neðst við Gljúfrin, ásamt börnum sínum sem þá voru flest upp komin.  Börn Theodórs og Guðrúnar eru þau Þorbjörg, Guðmundur, Gunnlaugur og Halldóra búsett á Húsavík og Guðný Anna búsett á Akureyri.

Árið 1977 fluttu Theodór og Guðrún til Húsavíkur þar sem þau bjuggu síðustu ár ævinnar. Tengsl Theodórs við náttúruna voru honum svo mikilvæg að eftir að til Húsavíkur kom dvaldi hann löngum á sumrin í tjaldi, í daldragi við Húsavíkurfjall, þar sem hann undi einn við lækjahjal og fuglaklið. Theodór hélt sæmilegri heilsu  og óskertum sálarkröftum allt fram undir andlátið. Sjónina hafði hann þó nánast alveg misst 10 árum áður en hann lét það ekki aftra sér frá því að vera sískrifandi um hugðarefni sín enda ákaflega leikinn á ritvél. Theodór lést á Húsavík, 12. mars 1985 þá tæplega 84 ára.