Alþjóðleg ábyrgð

Ef meira en 30% af Evrópustofni sömu fuglategundar verpur á Íslandi bera Íslendingar sérstaka alþjóðlega ábyrgð á viðkomandi tegund. Íslenski fálkastofninn telst vera um 30-60% af evrópska fálkastofninum og því ljóst að Íslendingar bera mikla alþjóðlega ábyrgð á verndun fálka. Íslenski  fálkastofninn er viðkvæmur fyrir áföllum og er fálkinn á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar er hann flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu. Válisti Náttúrufræðistofnunar Íslands byggir á viðmiðum Alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN.

Ísland hefur skuldbundið sig með alþjóðasamningum til að vernda ýmsar fuglategundir og búsvæði þeirra. Íslendingar eru meðal annars aðilar að Bernarsamningnum um vernd villtra dýra og plantna og lífsvæða þeirra í Evrópu. Íslendingar eru aðilar að RÍÓ samningnum um líffræðilega fjölbreytni en hann kveður meðal annars á um vernd og sjálfbæra nýtingu lífríkis, stofna og tegunda, búsvæða þeirra og vistkerfa. Þá eru Íslendingar einnig aðilar að Ramsar samningnum sem lýtur að vernd votlendis, sérstaklega þeim sem eru mikilvæg fyrir fugla. Árið 2000 fullgilti Ísland CITES- samninginn sem fjallar um alþjólega verslun með tilteknar tegundir lífvera og flutning þeirra milli landa.

Íslensk fuglaverndarlöggjöf frá 1994, (nr. 64/1994), er að verulegu leyti byggð á Bernarsamningnum. Fálkinn nýtur friðunar en samkvæmt þessum samningum ber okkur að friða fálkann þar sem hann er á válista. Okkur ber líka að tryggja búsvæðum hans fullnægjandi vernd (búsvæðaverndun) og um verslun með fálka gilda mjög ströng skilyrði samkvæmt Cites.