Hlúð að fálkum

Stofnar ránfugla eru að jafnaði ekki stórir og því viðkvæmir fyrir ýmsum áföllum sem þeir geta orðið fyrir úti í náttúrunni. Fálkastofninn er þar engin undantekning og á hverju ári finnast fálkar á Íslandi sem eru illa á sig komnir vegna grútarmengunar, slysa eða annarra orsaka. Á Vesturlöndum hefur lengi tíðkast að hjálpa ránfuglum sem lenda í hremmingum en örlög fáeinna einstaklinga geta skipt máli við að tryggja viðgang fáliðaðra ránfuglastofna. Markmiðið með endurhæfingunni er að koma fuglunum til fullrar heilsu og gera þeim kleift að komast aftur út í villta náttúru.

Á Íslandi hefur verið hlúð að ránfuglum sem lent hafa í hremmingum síðan á áttunda áratug síðustu aldar en íslensku ránfuglarnir okkar eru haförn, fálki og smyrill. Fyrstu árin var þessi endurhæfing framkvæmd á Náttúrufræðistofnun Íslands en aðstæður þar voru ekki góðar þar sem svona hjálparstarf kallar á sérhæfðan aðbúnað og þjónustu. Fljótlega eftir stofnun Húsdýragarðsins árið 1990 hófst samstarf milli Náttúrufræðistofnunar og Húsdýragarðsins um endurhæfingu ránfugla. Í tilefni af 100 ára afmæli fyrirtækisins Fálkans árið 2005 ákvað fyrirtækið að kosta umhirðu þeirra fálka sem koma til endurhæfingar í Húsdýragarðinum.

Þegar komið er með fálkana í Húsdýragarðinn eru þeir í fyrstu hafðir afsíðis. Þeir einstaklingar sem eru lífvænlegir og í framför eru síðar settir í útibúr þar sem gestir Húsdýragarðsins geta fylgst með þeim, allt þangað til þeim er sleppt.

Þeir sem finna fálka í hremmingum skulu setja sig í samband við Náttúrufræðistofnun Íslands.