Fæða rjúpu

Af hryggdýrum Íslands eru rjúpur afkastamestu villtu grasbítarnir á þurrlendi. Þær lifa nær einvörðungu á jurtafæðu allt árið um kring en ungarnir tína einnig í sig skordýr. Rjúpan lifir á mörgum tegundum plantna en hennar uppáhald eru æxlikorn kornsúrunnar. Æxlikornin eru mjög próteinrík og því sérstaklega mikilvæg fyrir hænurnar og ungana. Grasvíðirinn er vinsæl fæða og rjúpan étur einnig mikið af berjum. Á veturna þegar snjór er yfir öllu er erfitt að vera vandfýsinn á fæðu. Þá nærist rjúpan á rjúpnalaufi og brumum ýmissa runn- og trjátegunda.