Hænsnfuglar – einkenni

Hænsnfuglar (Galliformes) er ættbálkur landfugla sem útbreiddur er um allan heim. Þetta eru búkmiklir fuglar sem afla sér fæðu á jörðu niðri og nota fyrst og fremst fæturna til að bera sig um. Stuttir breiðir vængirnir eru notaðir til að forðast afræningja en eru ekki hannaðir til langflugs. Kyn flestra tegunda eru ólík og karlfuglar margra tegunda eru með langa og beitta spora aftan á fótleggjum sem notaðir eru í bardaga. Flestar tegundirnar hafa haft talsverða þýðingu fyrir manninn í gegn um aldirnar og þá fyrst og fremst sem veiðibráð. Samkvæmt fuglalista Clements (útgáfa 6.6 frá 2011) eru 286 tegundir hænsnfugla í heiminum og er þeim skipað niður í  5 ættir:

Háleggjahænsnaætt (Megapodiidae) inniheldur  21 tegund sem lifa í suðaustur Asíu og Eyjaálfu. Eins og nafnið bendir til þá eru stórir, sterkir fætur og tær með beittum klóm einkenni þessarar ættar. Fuglarnir eru best þekktir fyrir að notast ekki við líkamshita til að klekja egg sín. Þess í stað grafa þeir eggin þar sem hitastig er heppilegt frá náttúrunnar hendi s.s. í rotnandi gróðurleifum eða sólarhituðum sandi. Fuglarnir róta síðan stöðugt í jarðveginum til að halda hitastiginu stöðugu og sumar tegundir raka saman risastóra hauga af rotnandi gróðurleifum sem þeir verpa í.

Til Trjáhænsnaættar (Cracidae) eru taldar 52 tegundir fugla sem allar lifa í Suður eða Mið Ameríku. Þessir stéllöngu hænsnfuglar hafa lítið verið rannsakaðir enda búsvæði þeirra flestra inni í fumskógum þar sem erfitt er að fylgjast með þeim. Trjáhænsnin eru þó talin skyldust háleggjahænsnunum en saman eru þessar tvær ættir taldar frumstæðastar hænsnfugla. Á nokkrum tegundum vex sérkennilegur hnúður upp úr nefi eða höfði sem innfæddir nota í hálsmen.


Perluhænsnaætt (Numididae) inniheldur fæstar tegundir eða 6 sem eingöngu er að finna í Afríku, fyrst og fremst sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Smár og nánast fiðurlaus haus einkennir þessar tegundir sem lifa við fjölbreytt skilyrði frá regnskógum til þurra slétta. Þó þessir fuglar séu fleygir þá fljúga þeir ógjarnan en nota fæturna til að koma sér undan hættu enda afar fótfráir.


Ættin Odontophoridae hefur ekki hlotið neitt íslenskt heiti.Til hennar telst 31 tegund sem allar lifa í Ameríku. Þetta eru smáir þéttvaxnir fuglar með stuttan háls, vængi og stél. Þeir eru félagslyndir og lifa oft í hópum, sérstaklega utan varptíma. Margar tegundir eru með áberandi litamynstri á höfði og hálsi og sumar hafa fjaðurskúf á enni.

Langstærsta ættin er fashanaætt (Phasianidae) með 176 tegundir. Innan hennar eru þrír hópar fugla sem oft eru taldir til sér ættar hver um sig og verður hér fjallað um hvern þessara hópa.


Fashanar er stór og  mjög breytilegur hópur sem inniheldur allt frá smávöxnum stélstuttum fuglum upp í stóra og afar skrautlega fugla eins og páfuglinn. Hænur sem maðurinn hefur nýtt sér sem húsdýr teljast til þessa hóps. Útbreiðsla þessara fugla nær um fjórar heimsálfur, Evrópu, Asíu, Afríku og Eyjaálfu. Til fashana teljast 155 tegundir.

 



Til kalkúna teljast aðeins tvær tegundir gríðar stórra fugla sem lifa í Norður og Mið Ameríku. Karlfuglar stærri tegundarinnar eru allt að 10 kg að þyngd en kvenfuglarnir eru talsvert minni. Fuglarnir eru vel fleygir og geta komist á 100 km hraða þó hlutfall vængflatar á þyngdareiningu sé með því minnsta sem þekkist á meðal fugla.

 

Þriðji hópurinn eru orrafuglarnir en til þeirra teljast 19 tegundir sem eru útbreiddar í kaldtempraða og kuldabelti norðurhvels jarðar. Þeir stunda ekki eiginlegt far eins og flestar fuglategundir á þessum slóðum heldur lifa allt árið á svæðum þar sem veðurfar er mjög breytilegt milli árstíða. Aðlögun fuglanna miðast að lífi þar sem vetur eru langir og kaldir. Það sem helst aðgreinir þá frá öðrum hænsnfuglum eru fiðruð nasaop, kambar yfir augum og fætur flestra tegunda eru fiðraðir og sporalausir. Orrafuglar eru sérhæfðar jurtaætur og dýrafæði skiptir þá litlu máli nema fyrstu daga eða vikur ævinnar.

Þeir orrafuglar sem lifa á hrjóstrugustu og köldustu svæðunum eru rjúpurnar, fuglar af ættkvíslinni Lagopus. Af þeim eru til þrjár tegundir; fjallrjúpa, dalrjúpa og bergrjúpa. Tvær þær fyrst nefndu eru einu hænsnfuglarnir sem lifa bæði í gamla og nýja heiminum þ.e. Norður Ameríku og meginlandi Evrópu og Asíu. Fjallrjúpan er norðar eða hærra uppi og því á rýrari svæðum en frænka hennar dalrjúpan. Bergrjúpan lifir í fjöllum í vestanverðri Norður Ameríku frá Alaska og um Klettafjöllin allt suður til Nýju Mexíkó. Rjúpurnar eru einu hænsnfuglarnir sem skipta um búning eftir árstíðum þ.e. eru hvítir á veturna en gráir eða brúnir á sumrin.