Fróðleiksmolar um rjúpuna

Rjúpan skiptir um bolfiður þrisvar sinnum á ári og hefur því þrjá búninga; sumar- haust- og vetrarbúning. Engin önnur fuglategund á Íslandi hefur jafn marga búninga en langflestar fuglategundir skipta aðeins um bolfiður einu sinni á ári.

.

Bæði kynin eru með nakta rauða kamba fyrir ofan augun. Þessir kambar sjást þó ógreinilega nema hjá körrum á vorin þegar blóðsteymi veldur því að þeir blása út og verða við það mjög áberandi.

 

Fjallrjúpum í heiminum er skipað niður í 30 undirtegundir og er eina þeirra, Lagopus muta islandorum, eingöngu að finna hér á landi.

 

Rjúpan á Íslandi er skyldari rjúpum á Grænlandi en rjúpum í Skandinavíu sem bendir til að hún hafi numið hér land úr vestri en ekki austri eins og flestar aðrar fuglategundir landsins.

 

Rjúpan er með fiðraðar tær sem hjálpa henni bæði við að halda á sér hita á veturna sem og auðvelda gang í snjó.

 

Til að forðast hitatap á veturna á rjúpan það til að grafa sig í fönn.