Útflutningur á rjúpu

Útflutningur á rjúpu frá Íslandi hófst að öllum líkindum um miðja 19. öld en fram að þeim tíma höfðu rjúpur fyrst og fremst verið notaðar til heimabrúks. Upp úr aldamótunum 1900 voru fluttar út á bilinu 100 – 200 þúsund rjúpur á ári og náði útflutningurinn hámarki á árunum 1924-1927 þegar um 250 þúsund rjúpur voru fluttar út ár hvert, samtals um 1 milljón fugla á 4 árum. Útflutningur lagðist að mestu af um 1940.

Þingeyjarsýslur hafa í gegnum tíðina verið þekktar fyrir mikla rjúpnaveiði og má í því sambandi nefna að á fyrrihluta 20. aldar var útflutningur á rjúpu í gegnum Kaupfélag Þingeyinga töluverður. Þingeysk heimili höfðu af þessu talsverðar tekjur og voru dæmi um að skotnar væru 200-800 rjúpur á hverju ári á sumum þingeyskum heimilum. Árið 1905 voru t.d. rúmlega 23 þúsund rjúpur fluttar til annarra landa frá Húsavík. (Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 3. árg. 1909, 3. tölublað.)

Í tímariti kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 3. árg. 1909, 3. tölublað má finna leiðbeiningar og vangaveltur um útflutninginn:

„1. Rjúpurnar þarf að friða lengur en nú á sjer stað, að minnsta kosti mánuði lengur að haustinu til, eða fram í miðjan Október. Rjúpum er áreiðanlega að fækka og er því frekar ástæða til þess að koma í veg fyrir gagnslausa drápgirni á þeim tíma þegar rjúpan getur naumast verið verzlunarvara, en hins vegar eru nóg önnur störf fyrir hendi við haustannir bænda. Meðan maðktíminn stendur yfir er líka varla unnt að varðveita rjúpuna óskemmda. Þó skotmaður að eins leggi rjúpuna frá sjer, litla stund, geta flugur komið lirfum sínum fyrir, án þess að sje gætt, og úr því er rjúpan ónýt vara.

2. Rjúpur sem finnast dauðar á víðavangi ætti aldrei að hirða til útflutnings, þar má hvað helzt búast við að skemmdir komi fram.

3. Rjúpurnar ættu aldrei að verða gamlar frá því skotnar eru til þess þær eru látnar niður, helzt eigi eldri en vikugamlar.

4. Mjög blóðugar rjúpur, eða þær, sem eru með stórum holsárum, ætti aldrei að taka til útflutnings.

5. Kassarnir utan um rjúpurnar ættu ekki að vera stórir, láta helzt eigi yfir 50 rjúpur í kassa, en minna í suma, eptir atvikum. Hver rjúpnaeigandi sje einn um kassa og enginn þar í fjelagi. Móttökumaður rjúpnanna merkir alla kassana, við sömu verzlun, með framhaldandi raðtölum; hann ritar raðtöluna og rjúpnatöluna í bók, út frá nafni eigandans. Við útsöluna eru raðtölur þeirra kassa skrifaðar upp, sem geyma skemmdar rjúpur og tölurnar sendar móttökumanninum hjer á landi. Þá er auðvelt að finna eigandann og láta hann bera skaðann, eins og á að vera. Þetta er sama regla og sumstaðar er höfð, með smjörsendingar innanlands og borið hefir góðan árangur. Danir fara og líkt að með eggjaútbúnað sinn til Englands og telja þessa reglu hafa leitt til mestu umbóta í vöruvönduninni.

Þó eigi sje um stórvægilega vörugrein að ræða, þar sem útfluttar rjúpur eru, er hún samt fyllilega þess verð, að reynt sje að gera landsmönnum hana sem arðmesta.Það getur bezt orðið með því, að tryggja þar vöruvöndunina og reyna, með heppilegum friðunarlögum, að koma í veg fyrir það að rjúpum verði nær því gersamlega eytt, eins og nú er helzt útlit fyrir að takast muni, sje ekkert að hafst til að koma í veg fyrir það. (Framhald síðar.) S.J.

Það tímabil sem útflutningur á rjúpu stóð yfir var rjúpan alfriðuð í fjögur skipti til að stemma stigu við fækkun hennar. Það var árin 1915, 1920-1923, 1930-1932 og 1940-1942 en eftir það lagðist útflutningur að mestu af.