Fróðleiksmolar um fálkann

Fálkinn er eina fálkategundin sem byggir lönd norðurhjarans árið um kring.

 

Fálkinn er stærsta tegundin innan fálkaættarinnar (Falconidae).

 

Latneska nafnið Falco rusticolus er talið þannig tilkomið: Falco vísar til einhvers sem er krókbogið en í tilviki fálkans getur það bæði átt við nefið og klærnar. Rusticus (rus = sveit) vísar til sveitarinnar og colare (colare = búa) til þess sem býr. Tegundaheitið rusticolus skírskotar því til íbúa sveitarinnar en kjörsvæði fálkans eru einmitt opin svæði túndrunnar – óbyggðanna.

 

Í gegnum söguna hefur fálkinn notið mikillar virðingar meðal fálkatemjara og fálkaveiðimanna. Á miðöldum voru það aðeins konungar sem máttu veiða með fálkum.

 

Fálkar og hrafnar eru ekki miklir vinir en fálkinn rænir hrafninn hreiðri og rekur hann í burtu af mikilli grimmd. Fálkinn vandar lítt hreiðurgerðina og finnst gott að fá fullgert hreiður hrafnsins til afnota. Fuglarnir takast á um hreiðrið og hljótast af því miklir loftbardagar þar sem fálkinn hefur oftast betur. Hreiður hrafna eru kölluð laupar.