Útbreiðsla og búsvæði fálka

Fálkinn (Falco rusticolus) er norðlægastur allra fálkategunda, með útbreiðslu allt í kringum Norðurheimskautið. Hann verpur í Norður-Ameríku, á Grænlandi og nyrstu héruðum Asíu og Evrópu, þar með talið Íslandi. Kjörsvæði fálkans eru opin svæði og er hann algengastur á opnum svæðum túndrunnar en finnst einnig  í nyrsta hluta barrskógabeltisins.

Hérlendis er fálkinn sjaldgæfur varpfugl sem verpur dreift um allt land. Hann heldur sig að miklu leyti á láglendi og á mörkum láglendis og hálendis en þó kemur fyrir að hann verpi langt inni á hálendinu.  Algengastur er fálkinn á Norðausturlandi þar sem þéttleiki rjúpu (Lagopus muta), aðalfæðu hans, er mestur. Á Norðausturlandi eru víðáttumikil og þurr heiðalönd einkennandi, dæmigerð kjörlendi rjúpunnar. Jökulsárgljúfur eru eitt mikilvægasta búsvæði fálkans enda er þar úrval góðra varpstaða og stutt í gjöfular veiðilendur. Á Norðausturlandi, þar með talið í Jökulsárgljúfrum, hafa staðið yfir rannsóknir á fálkanum frá því árið 1981.

Fálkinn er staðbundinn fugl og svo lengi sem nóg er af æti þá halda fullorðnu fuglarnir sig að öllu jöfnu á heimaslóðum allt árið um kring. Ungfuglar ferðast hinsvegar víða um landið og á veturna halda þeir sig helst við ströndina þar sem fæðuframboð er meira.