Fálkinn – helstu einkenni

Fálkinn (Falco rusticolus) er stærsta tegundin innan fálkaættarinnar, Falconidae. Fullorðinn kvenfálki vegur um 1500 – 1800 grömm en karlfugl um 1200 – 1400 grömm. Fálkar eru um 50-60 cm á lengd og með vænghaf á bilinu 130 – 160 cm.

 


 

Mikill einstaklingsmunur er á lit fálka eða allt frá nær alhvítum fuglum yfir í nær aldökka. Íslenskir fálkar eru gráleitir í fullorðinsbúningi, karlfuglar yfirleitt ljósari en kvenfuglar. Ungfuglar eru brúngráir og virðast dekkri en fullorðnu fuglarnir. Einnig má greina aldur fuglanna á litum á fótum, vaxhúð við goggrót og augnbörmum. Þessi húð er gul á fullorðnum fuglum  (skærgul á karlfuglum og daufari á kvenfuglum) en blágrá á ungfuglum.

 

 

Á hverju ári sjást hér hvítir fálkar en þeir eru gestir frá Grænlandi. Grænlenskir fálkar eru einnig nefndir hvítfálkar. Fyrr á öldum þegar fálkar voru veiddir til útflutnings, voru þeir flokkaðir og verðlagðir eftir lit. Gráir voru algengastir, hálfhvítir sjaldgæfari og hvítir voru enn sjaldgæfari en einnig þeir verðmætustu.

Fálkinn er mjög hraðfleygur og fimur á flugi. Hann hremmir bráð oftast á lofti en einnig á landi og yfirborði vatns.  Fálkinn er fremur þögull fugl en á varpstöðvum gefur hann frá sér hvellt væl og í árásarhug gargar hann reiðilega.

Fálkinn er ófélagslyndur fugl sem veiðir yfirleitt einn. Á haustin má stundum sjá nokkra ungfugla saman og pör eiga það til að veiða saman.

Talið er að fálkar geti orðið yfir 30 ára gamlir.