Fálkinn í menningu Íslendinga

Fálkinn á sér sérstakan sess í sögu og menningu Íslendinga. Frá alda öðli voru fálkar veiddir á Íslandi og fluttir út til Evrópu þar sem þeir voru tamdir til veiðileikja. Fálkinn var áður í skjaldarmerki Íslendinga og fálkaorðan, eitt æðsta heiðursmerki Íslendinga, er kennd við fálkann.

Hinn mikli íslenski veiðifálki bar hróður Íslands langt út fyrir landsteinana og meðal íslenskra fugla er fálkinn líklega þekktastur þeirra allra. Í dag sækjast erlendir fuglaskoðarar eftir því að sjá þennan glæsilega fugl í sínum náttúrulegu heimkynnum.

Fálkinn og rjúpan eru nátengd en rjúpan hefur um langa tíð verið ein mikilvægasta veiðibráð Íslendinga og einn vinsælasti jólamatur hjá hluta þjóðarinnar. Sumir telja að fálkinn sé þar í beinni samkeppni við manninn og líta hann því hornauga. En um þessi nánu tengsl fálka og rjúpu má einnig lesa í skemmtilegri þjóðsögu þar sem María mey hefur örlög rjúpunnar í hendi sér.

Margir vilja gera fálkann að þjóðarfugli Íslands og væri þessi tígulegi fugl vel að því kominn.