Varp fálka

Fálkinn verður kynþroska 2-4 ára gamall. Fálkar helga sér varpóðal sem þeir verja fyrir öðrum fálkum en veiðilendur eru sameign allra. Innan hvers óðals geta verið nokkur hreiðurstæði og velur parið eitt þeirra til að verpa í hverju sinni. Fálkinn er trygglyndur maka sínum og aðeins þegar annar fuglinn deyr er tekið upp nýtt ástarsamband.

Varptími fálkans hefst síðla vetrar, í mars-apríl. Hann velur sér hreiðurstæði í klettum, árgljúfrum og giljum, yfirleitt á óaðgengilegum stöðum. Hreiðrið er oft í smáskútum eða á grasi grónum klettasyllum.

Fálkar, sem aðrir ránfuglar, vanda hreiðurgerðina lítið. Algengt er að þeir taki yfir og noti gamla hrafnslaupa eða ræni hreiður hrafna þegar hrafnar eru að hefja varp á vorin, eilítið fyrr en fálkinn. Þá reka þeir hrafnana í burtu og verða oft mikil átök milli fuglanna. Hrafnar byggja sér vönduð hreiður eins og aðrir spörfuglar en hreiðurlaupar hrafna eru iðulega gerðir úr greinum, beinum og spýtnarusli þar sem innan um má stundum sjá skrautlega hluti sem hrafninn hefur laðast að og fært í hreiðrið. Hreiðrin eru svo fóðruð með ull. Ef fálkinn notar ekki hrafnslaupa verður hreiðrið aðeins grunn laut, lítið sem ekkert fóðruð. Einnig kemur fyrir að fálkar nýti sér manngerð hreiður:

„Á þessu tiltekna óðali hafði verið hrafnslaupur þar sem fálkaparinu hafði tekist vel að koma upp ungum. Þegar laupurinn hrundi færði parið sig um set og þar gekk varpið illa. Þá tók Óli [Ólafur Karl Nielsen] upp á því að byggja hreiður þar sem gamli laupurinn hafði verið og næsta vor var fálkinn kominn þangað aftur.“  (Daníel Bergmann 2007. Náttúrukvikmynd. Í ríki fálkans með Óla Nielsen. Fuglar 4: 18-19.)

Skömmu fyrir varptíma fálkans sest  kvenfuglinn að í námunda við væntanlegt hreiður og karlinn færir henni fæðu.

„Í tilhugalífi fálka hættir kerlingin að veiða, karlfálkinn ber í hana æti heim á hreiðurklettinn og í ástarbrímanum grafa og máta fuglarnir hreiðurskálar á syllum“. (Ólafur K. Nielsen 2007. Ödipus konungur. Um sérkennilegt samlífi fálka. Fuglar 4: 30-35.)

Á þessum tíma þyngist kvenfuglinn og er hún þyngst á þeim tíma sem hún er að verpa og hefja álegu. Þyngdaraukning kvenfuglsins er ákaflega mikilvægur þáttur og grunnur að því að af varpi verði. Á þessum tíma er rjúpan uppistaðan í fæðu fálkans og varpið stendur og fellur með framboði af rjúpu.

Fálkinn verpur oftast á bilinu þremur til fimm eggjum en sjaldgæft er að hann komi upp fimm ungum.  Kvenfuglinn sér um útungun á meðan karlinn aflar fæðu. Ungarnir koma úr eggjunum eftir um það bil 5 vikur. Fálkaungar eru vanþroska þegar þeir líta dagsins ljós og getur slæmt veðurfar valdið ungadauða vegna bleytu og kulda eða ónógrar fæðuöflunar. Fyrst eftir útungun er það karlinn sem heldur áfram að veiða á meðan að kvenfuglinn matreiðir bráðina ofan í ungana en eftir því sem ungarnir stækka og verða þurftarfrekari  tekur kvenfuglinn einnig þátt í fæðuöflun. Í nágrenni fálkahreiðra má oft sjá staði með leifum af sundurtættum rjúpum, fiður og bein. Þar er rjúpan aflimuð og étin af fullorðnu fuglunum áður en ungar koma úr eggjum. Eftir útungun fara fuglarnir með bráðina, eða hluta hennar í hreiðrið til unganna. Ungarnir verða fleygir eftir rúmlega 6 – 7 vikur og yfirgefa þá hreiðrið. Í fyrstu eru ungarnir háðir foreldrunum um fæðu. Um það leyti sem rjúpuungar eru orðnir fullvaxnir í ágúst fara fálkaungarnir sjálfir á veiðar enda komnir úr umsjá foreldranna. Fyrsta árið bíður fálkaunganna erfið lífsbarátta og eru afföll þeirra talsverð á fyrsta ári.

Fálkinn er staðbundinn fugl og óðalsfálkar dvelja við óðalið árið um kring. Þeir halda tryggð við óðal sitt og er það notað ár eftir ár, kynslóð fram að kynslóð. Gömul og rótgróin hreiðurstæði fálka má auðveldlega þekkja á löngu færi þar sem áburður frá driti hans hefur langtímaáhrif á vöxt plantna og fléttna á hreiðurklettinum. Þegar fálkum fækkar fara sum óðul í eyði, en er stofninn vex eru þau setin á ný.