Fæða fálka

Fæða íslenska fálkans er að mestu fuglar, einkum rjúpa (Lagopus muta), en hún er aðalfæða fálkans árið um kring. Rjúpan er fálkanum sérstaklega mikilvæg þegar hann undirbýr varp og á meðan á varpi og álegu stendur. Á þeim tíma, sem stendur frá seinni hluta mars og fram til loka maí, étur fálkinn fátt annað en rjúpu. Ef mikið er af rjúpu á þessum tíma gengur varp fálkans vel en því er öfugt farið þegar lítið er um rjúpu.

Rannsóknir Ólafs Karl Nielsen á sumarfæðu fálka í Jökulsárgljúfrum sýna glöggt hversu mikilvæg fæða rjúpan er fálkanum á svæðinu.

Fálkar, einkum þeir sem verpa nálægt sjó, veiða einnig sjófugla og við ferskvötn taka þeir endur.  Fálkinn veiðir allt frá minnstu spörfuglum sem vega aðeins um 20 g upp í fullorðnar grágæsir sem vega 3 – 4 kg. Einstakir fálkar (einstaklingar) geta orðið nokkuð sérhæfðir í fæðuvali þegar kemur að öðrum fuglategundum en rjúpu. Á Íslandi veiðir fálkinn einnig hagamýs en víða erlendis veiðir fálkinn spendýr eins og snæhéra, læmingja og jarðíkorna þó rjúpa sé að öllu jöfnu uppistaðan í fæðu hans.

Þó fæstar tegundir af fálkaætt stundi hræát þá eiga íslenskir fálkar það til að leggjast á hræ. Þetta atferli fálkans er aðlögun hans að erfiðum lífsskilyrðum á norðurslóðum og er hræátið honum líklega mikilvægast á veturna þegar fæðuframboð er minna. Á veturna leita fálkar oft að sjávarsíðunni þar sem sjóreknir fuglar koma sér þá vel.

Sjá einnig:

Fálki á veiðum

Fálki matreiðir rjúpu