Stofnstærð og sveiflur fálka

Íslenski fálkastofninn er lítill. Hann er áætlaður um 300-400 varppör en á veturna telur hann á bilinu 1000-2000 fugla. Stofnstærð íslenska fálkans er breytileg og fylgir hann náttúrulegri stofnsveiflu íslenska rjúpnastofnsins.  Stofnstærð íslenska rjúpnastofnsins breytist reglulega þannig að á um 10 ára fresti eru hámarksár í stofninum. Munur á fjölda rjúpna í hámarks- og lágmarksárum getur verið á bilinu 3-10 faldur. Fálkinn er háður rjúpunni og fálkastofninn sveiflast í takt við rjúpnastofninn en er hnikað þannig að mest er um fálka 2-4 árum eftir hámarksár rjúpunnar. Íslenska rjúpnastofninum hefur hnignað og stofnstærð hans í hámarksárum nú er talsvert minni en þekktist á stóru hámarksárunum um miðja síðustu öld. Athuganir á íslenska fálkastofninum sýna að honum hefur hnignað verulega á Vestur- og Suðurlandi en þar hefur rjúpu einnig fækkað umtalsvert.  Það er því ljóst að fækkun rjúpna getur haft áhrif á viðkomu fálkans til framtíðar.

Heimild: Ólafur Karl Nielsen, 2012

Íslenski fálkastofninn telst vera um 30-60% af evrópska fálkastofninum. Íslendingar bera því mikla alþjóðlega ábyrgð á verndun fálka. Ljóst er að svona lítill fálkastofn, eins og íslenski fálkastofninn, er viðkvæmur fyrir áföllum. Fálkinn er á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands og er þar flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu. Helstu ógnir við fálkann eru taldar vera dráp á fullorðnum fuglum, stuldur á eggjum og ungum, hnignun rjúpnastofnsins, eyðilegging á fálkasetrum og uppsöfnun þrávirkra eiturefna í fæðuvefnum.