Útflutningur fálka

Veiðar með fálkum er ævagömul hefð sem barst frá Asíu til Evrópu. Þessi forna veiðiíþrótt er talin upprunnin hjá hirðingjum í Asíu en í Kína voru fálkar taldir höfðinglegar gjafir um 2000 árum fyrir Kristsburð.  Í Evrópu náði þessi veiðiíþrótt einnig miklum vinsældum meðal höfðingja sem höfðu af henni mikla skemmtun.

Ýmsar tegundir af fálkaætt voru veiddar og tamdar til veiðileikja en íslenski fálkinn var talinn þeirra bestur. Naut hann mikillar virðingar og var eftirsóttastur þeirra allra. Fálkinn þótti konungsgersemi og aðeins mestu fyrirmennin notuðu íslenska fálkann til veiða. Að því kom að Danakonungur sló eign sinni á fálkann en fuglana notaði hann til að treysta vinabönd við fursta og aðra höfðingja í Evrópu og jafnvel víðar, meðal annars við sjóræningjaveldin í Norður-Afríku. Fálkar þóttu mjög höfðinglegar gjafir milli konunga og keisara.

Fálkinn var fluttur út frá Íslandi til Evrópu og hófst útflutningur að því er talið á 11. öld. Fyrstu aldirnar fór ekki mikið fyrir útflutningi enda heimildir um hann strjálar. Þegar kemur fram á 16. öld er fálkaveiðin orðin það mikilvæg að útflutningurinn varð ein af tekjulindum Danakonungs sem hafði þá slegið eign sinni á fuglinn.  Á 18. öld er hægt að rekja þróun veiðanna í opinberum reikningum yfir kaup á fálkum af fálkaveiðimönnum.

Fálkafangarar sáu um að veiða fálka og þótti það fremur virðingarverð staða. Í manntalinu frá 1703 eru til að mynda þrír menn kallaðir fálkafangarar. Fálkarnir voru ýmist veiddir í gildrur eða teknir úr hreiðrum, þá egg eða ungar. Gildran var oft úr neti sem fálkinn flæktist í og var lifandi rjúpa notuð sem agn fyrir fálkann. Sérstök fálkahús (Valhús) voru reist á Bessastöðum og á Seltjarnarnesi til að geyma fálkana í meðan þeir biðu útflutnings til Danmerkur.  Þar voru þeir fóðraðir á nauta- og kindakjöti sem var keypt sérstaklega til að fóðra þá.


Hvítir fálkar voru sjaldgæfari en gráir og því enn verðmætari. Sem dæmi um það má nefna að árið 1710 er talið að Danakonungur hafi keypt 83 fálka af íslenskum fálkaveiðurum og voru tveir þeirra hvítir. Fyrir hvítan fálka greiddi konungur 15 ríkisdali en 5 fyrir gráan. Á þessum tíma jafngiltu 4 rikisdalir 1 kýrverði. Samkvæmt því var hvítur fálki metinn á tæplega 4 kýrverð.

Mestur varð útflutningurinn á 18. öld og á tímabilinu 1731-1793 voru fluttir úr landi tæplega 5000 fuglar, að meðaltali um 80 fuglar á ári (mest 211 og minnst 15 fuglar). Styrjaldir á 18. öld og umrótið eftir frönsku stjórnarbyltinguna 1789, ásamt breyttri tísku og lífsvenjum aðalsins þar sem áhugi hans á veiðileikjum með fálka hafði dalað, batt enda á fálkaútflutning frá Íslandi.

Á seinni hluta 19. aldar og fram á 20. öld sóttust safnarar mjög eftir því að komast yfir fálkaegg og unga. Einnig var eftirspurn eftir fálkum til tamningar þó ekkert í líkingu við það sem áður var.

Íslenski fálkinn hefur verið alfriðaður frá árinu 1940 en á þeim tíma hafði verið gengið mjög nærri stofninum.