Varpóðal fálka

Varpóðal, fálkaóðal eða fálkasetur er það svæði sem fálkahjón verja fyrir öðrum fálkum. Yfirleitt er þetta aðeins hreiðurkletturinn og næsta nágrenni hans. Á hverju fálkaóðali eru alltaf nokkur hreiðurstæði sem parið notar til skiptis milli ára. Hreiðurstæðin geta verið í mismunandi klettum innan óðalsins, jafnvel með nokkurri fjarlægð á milli. Þessi hreiðurstæði geta verið gömul hrafnshreiður (hrafnslaupar) og í einstaka tilvikum geta verið nokkur slík innan fálkaóðalsins. Fálkinn notar gömlu hrafnshreiðrin innan óðalsins sem hreiður, afdrep, hvíldar- eða setstaði. Á sama tíma er aldrei nema eitt fálkapar búsett á hverju óðali. Veiðilöndin eru hinsvegar sameiginleg enda þurfa fálkar oft að sækja langt til fæðuöflunar. Gæði fálkaóðala fer eftir ýmsum þáttum og má þar nefna fjarlægð í fengsælar veiðislóðir og fjöldi góðra hreiðurstæða.

Átthagatryggð fálka er mjög mikil og nota þeir sama óðal ár eftir ár, kynslóð eftir kynslóð, líkt og margir aðrir ránfuglar. Talið er að sum íslensk fálkaóðul hafi verið notuð af fálkum í aldir eða árþúsundir, jafnvel allt frá lokum ísaldar fyrir um 10 þúsund árum.

Innan þjóðgarðslandsins í Jökulsárgljúfrum eru 9 fálkaóðul, sjö í gljúfrunum, eitt í Ásbyrgi og eitt við Eilíf. Óðulum í ábúð hefur fækkað líkt og annars staðar á NA landi og helst það í hendur við fækkun rjúpunnar á sama svæði en 85% af fæðu fálkans í gljúfrunum er rjúpa. Flest var ábúð á 9 óðölum fyrir 1990 en árið 2007 voru aðeins 4 í ábúð.

Heimild: Ólafur Karl Nielsen, 2012